Björt Sýn

Við erum öll í þessu saman

Sagan okkar

Björt sýn er styrktarfélag stofnað sumarið 2018 sem regnhlífasamtök fyrir munaðarlaus börn í Kenya. Björt sýn byggði og rekur heimili fyrir munaðarlaus börn í Homa Bay sem er skammt frá Viktoríuvatni. Einnig rekur félagið barnaskóla á sama stað.

Nú búa tæplega 70 munaðarlaus börn á heimili Bjartrar sýnar. Þetta er litskrúðugur og líflegur hópur en auk þess eru þarna drengur frá Uganda og systkini frá Tanzaníu. Krakkarnir eru á aldrinum fjögurra til sextán ára en auk þeirra sækja skólann hátt í tvö hundruð börn úr nærsveitum.

En hvernig er starfið fjármagnað? Björt sýn byggir á grasrótarstarfi sem er fjármagnað með frjálsum framlögum. Á stundum hafa samtökin fengið myndarlega styrki sem m.a. gerðu þeim kleift að byggja skólann. Frá upphafi hefur þess verið gætt að styrkir fari óskiptir í að hlúa að börnunum. Dýr yfirbygging þekkist ekki í starfi Bjartrar sýnar.

Upphaf Bjartrar sýnar má rekja til þess að Ólafur Halldórsson fór í heimsókn árið 2017 til kunningja móður sinnar. Sá hinn sami var búsettur í Masaailandi í Keníu. Í þessari heimsókn fór Ólafur um móðurálfuna sunnan Sahara. Þetta ferðalag hafði mikil áhrif. Kunninginn, sem var af þjóðflokki Masaai, sagði íslenska gestinum frá menningu Masaai sem búa til dæmis yfir aldalangri þekkingu á náttúru landsins og eru meira en fúsir til að deila henni með gestum sínum.

Þarna var kveikt ljós sem skein bjartar eftir því sem leið á heimsóknina. Ólafur var á leið til Tansaníu en örlaganornirnar tóku í taumana í litlu þorpi skammt frá Viktoríuvatni þegar Ólafur fékk inni hjá höfðingja, Svala Ógata, af Luo ættbálkinum – en til hans getur Barak Obama, fyrrum Bandaríkjaforseti, rakið ættir sínar. Svalí rekur reyndar heimili fyrir munaðarlaus börn sem eru ótrúlega mörg í Afríku. Ì Keníu eru yfir tvær milljónir munaðarlausra barna en í Afríku allri eru þau yfir 50 milljónir – ef marka má opinberar tölur. Óhætt er að fullyrða að börnin búi við misjafnan kost og yfirleitt rýran. Svalí varð sjálfur munaðarlaus þriggja ára gamall og upplifði ótrúlegt afskiptaleysi og harðræði í mörg ár þar til hann komst loks undir verndarvæng góðs fólks. Svalí menntaðist sem raftæknir og setti upp verkstæði í Kísúmúborg og vegnaði vel.

Fyrir nokkrum árum tók hann á sér fjögur munaðarlaus börn til „að endurgjalda lífinu skuld sína“. Á ýmsu gekk en börnunum fjölgaði. Amma eins þeirra gaf Svalí landspildu þar sem hann byggði hús og gat stundað akuryrkju til að framfleyta sér og krökkunum.

Það var einmitt þarna – í barnahópnum hans Svalí – sem Ólafur vaknaði einn góðan veðurdag við hlátrasköll tuga barna á öllum aldri og af ýmsum kynþáttum. Fæst höfðu séð hvítan mann og fannst það frekar merkilegt svo ekki sé meira sagt. Það tók Ólaf ekki langan tíma að átta sig á að það var skortur á nánast öllu nema lífsgleði. Matur var ekki til, lyf voru fáséð og börnin áttu ekki neina möguleika á menntun.

Og nú voru góð ráð dýr. Svalí sagði að hvergi væri hjálp að fá. Hann væri búinn að reyna allt. En íslenski þverhausinn – vildi reyna. Hugsanlega má segja að hann hafði fengið köllun því innra með honum hljómaði rödd sem sagði honum að hér væri verk að vinna. Og hann hófst handa en það var ekki eins og hjálparsamtök væru að bíða eftir símtali frá honum. Þau fáu sem svöruðu sögðu einfaldlega að „kvótinn í Kenía“ væri búinn. Ólafur ákvað að Ikhlaas munaðarleysingjahælið væri lokapunktur ferðalagsins. Þarna var hann í nokkrar vikur og gat gert ótrúlega margt fyrir krakkana þó veskið væri þunnt. En svo kom kveðjustundin. Sumir hlógu en aðrir grétu. Og þarna sagði Ólafur við hópinn að krakkarnir gætu gert ráð fyrir að mánaðarlega mundi hann senda peninga til þeirra svo þau fengju í það minnsta næringarríkan morgunmat.

Þegar Ólafur kom í alsnægtirnar heima á Íslandi áttu margir erfitt með að trúa því hvernig búið væri að munarlausum börnum í Kenía. Fólki féll allur ketill í eld við lýsingarnar. En flestir lögðu eitthvað í púkkið og lífið í munaðarleysingjahælinu tók breytingum. Nú höfðu börnin eitthvað að bíta og brenna og aðbúnaður breyttist til batnaðar.

Það er ekki einfalt að bjarga heiminum en það virðist vera öllu flóknara að koma afrískum börnum til aðstoðar – og þó. Með þrautseigju og trú á verk er hægt að koma ýmsu áfram. Ólafur stofnaði fyrst safnreikning á eigin nafni en fékk fljótlega þá hugmynd að stofna félag með kennitölu, bankareikning og setja stjórn yfir starfið. Fljótlega kom Tolli listmálari – og vinur Ólafs – til sögunnar sem og Friđjón Gudjohnsen bróðir Ólafs og Sigmundur H. Brink og fjórmenningarnir stofnuðu Bjarta sýn.

Hjólin fóru að snúast. Tolli borgaði vatnsbrunn og Jógasetrið safnađi upphæð sem nægđi fyrir rúmum handa öllum og vel það. Sonur Ólafs sem var í 10. bekk í Hagaskóla talaði fyrir málinu í skólanum og Björt sýn fékk veglega fjárhæð sem safnaðist á árlegum góðgerðardegi.

Aftur lagði Ólafur land undir fót of fór til Keníu í árslok 2019. Meðferðis var dágóður sjóður og metnaðarfullar áætlanir. Við komuna fékk hann þær fréttir að eini barnaskólinn í sveitinni hafđi lagt upp laupana og nú lá beinast viđ að byggja skóla. Og hvað gerir maður þegar enginn er skólinn?

Í þessari sveit er botnlaus fátækt og fæsta dreymir um lágmarks skólagöngu. Framhaldsmenntun er hugtak sem er ekki þekkt á þessum slóðum. En skóli þarf nemendur og krakkarnir á heimilinu voru of fáir til að manna heilan skóla. Til að bjarga því var ákveðið að taka einnig við fátækustu börnunum úr nærsveitum.

Þegar saman fara hugsjónir, dugnaður og ögn af óraunsæi er fyrst hægt að gera ráð fyrir kraftaverkum! Og hér gerðist kraftaverk. Á tæpum tveimur mánuðum reis barnaskóli frá grunni. Tvö hús með sex kennslustofum, kennara-, sauma- og tölvustofu. Reyndar skortir tæki í tölvustofuna en það stendur til bóta. Ráðnar voru sex kennslukonur.
Eina sem tafði verkið voru leyfi af ýmsu tagi. Fyrr en varði hlóðust upp haugar af stimpuðum skjölum. Haugarnir hefðu verið lægri ef Ólafur hefði mútað embættismönnum en mútur voru ekki til í orðabók Ólafs. Embættismenn nefndu það blákalt að allt mundi ganga betur ef þeir fengju ögn í vasann en skriffinnarnir urðu undirleitir þegar þeim var bent á að Íslendingarnir væru að gera það sem þeir – embættismennirnir – ættu að gera.

Skólinn hóf störf þann fjórða janúar – og að sjálfsögðu var slegið upp veislu. Það var líka ástæða til að fagna. Aðbúnaður barnanna breyttist sem og líkamlegt og andlegt heilbrigði. Þeir sem standa að Bjartri sýn greiða stærsta hluta rekstrarkostnaðar skólans og heimilsins. Og það er gert með glöðu geði. Stefnan er hins vegar sú að heimilið verði sjálfbært en í því skyni var keyptur landskiki sem nota má fyrir ræktun og jafnvel aðra starfsemi að hluta. Þá var líka fjárfest í vatnsdælu sem nýtist vel á þurrkatímum. Ein vatnsdæla skiptir máli þegar ekkert er til og neyðin alger. Vatn er forsenda lífs.

Nú er svo komið að íbúar munaðarleysingjaheimilsins rækta nóg af grænmeti og rúmlega það. Þeir hafa líka nýtt sér saumavélar sem voru keyptar hana skólanum og heimilinu. Þá voru keyptar hænur sem nú vappa um svæðið ásamt tveimur geitum og kú.

Það skortir ekki verkefni. Félagar í Bjartri sýn hafa velt mörgum möguleikum fyrir sér. Þannig hefur komið upp sú hugmynd að kaupa gamla, lélega bíla og kenna strákunum að gera þá upp. Rætt hefur verið um að kaupa meira land og jafnvel dráttarvél – og láta grafa brunn sem nær niður í grunnvatnið. Tollabrunnur – eins góður og hann er – þyrfti að vera dýpri. Þá þarf þarf að huga að rafmagnsmálum og kaupa tæki og tól.

Það kostar peninga að koma nauðstöddum til manns og það er ótrúlega mikil samkeppni í góðgerðarmálum – en margir hafa litið til Bjartrar sýnar og stutt starfið með þeim árangri að tekist hefur að breyta tilveru margra barna til hins betra. Sýnin er sannarlega björt.

“Það getur verið að þú sért stundum eina manneskjan í heiminum, en þú ert líka ef til vill allur heimurinn fyrir eina manneskju.”