Björt Sýn
Við erum öll í þessu saman
Björt sýn er styrktarfélag stofnað sumarið 2018 fyrir munaðarlaus börn í Kenya. Björt sýn byggði og rekur Takk heimilið, heimili fyrir munaðarlaus börn í Otugis,Homa Bay sýslu, skammt frá Viktoríuvatni. Einnig rekur félagið barnaskóla á sama stað.
Um þessar mundir búa 43 munaðarlaus börn á Takk heimilinu. Þau eru flest úr nærsveitum, en nokkur lengra að komin þ.á.m. nokkur frá Úganda Þetta er litskrúðugur og líflegur hópur Krakkarnir eru á aldrinum nokkura mánaða til 18 ára en auk þeirra sækja skólann nokkur börn úr nærsveitum. Mörg barnanna hafa lifað við ofbeldi, veikindi og almenna vanrækslu og eru ílla trámuð. Fjórtán þeirra eru með HIV á mismunandi stigum. Þau koma úr ýmsum áttum, aðallega gegnum barnaverndar og lögreglu yfirvöld. Nokkur hafa fundist yfirgefin á víðavangi.
En hvernig er starfið fjármagnað? Björt sýn byggir á grasrótarstarfi sem er fjármagnað með frjálsum framlögum. Á stundum hafa samtökin fengið myndarlega styrki sem m.a. gerðu þeim kleift að byggja skólann og kaupa bíl. Frá upphafi hefur þess verið gætt að styrkir fari óskiptir í að hlúa að börnunum. Dýr yfirbygging þekkist ekki í starfi Bjartrar sýnar. Þeir Íslendingar sem að því koma vinna launalaust og borga reyndar með sér.
Upphaf Bjartrar sýnar má rekja til þess að Ólafur Halldórsson fór í heimsókn árið 2017 til kunningja móður sinnar. Sá er búsettur í Masaai Mara í Keníu. Síðan ferðaðist hann dálítið um Austur Afríku. Þetta ferðalag hafði mikil áhrif á hann.
Einn daginn fékk hann næturgistingu á munaðarleysingjahælinu Ikhlaas í litlu þorpi í Vestur Keníu um morguninn vaknaði hann umkringdur hópi af börnum á öllum aldri. Þau voru klædd í tötra og öll meira eða minna áberandi vannærð. Þau höfðu aldrei séð hvítan mann og fannst það frekar merkilegt svo ekki sé meira sagt. Það tók Ólaf ekki langan tíma að átta sig á að það var skortur á nánast öllu nema lífsgleði. Matur var ekki til, lyf voru fáséð og börnin áttu ekki neina möguleika á menntun. Þarna upplifði Ólafur hina margrómuðu “köllun”; hann dvaldi þarna í þrjár vikur, og notaði restina af farareyrinum í hollan mat, vítamín, fótbolta og fleira. Þegar hann fór heim lofaði hann að senda mánaðlega peninga sem ættu að fara óskipt í hollan morgunmat.
Þegar Ólafur kom í alsnægtirnar heima á Íslandi áttu margir erfitt með að trúa því hvernig búið væri að munarlausum börnum í Keníu. Vinir og vandamenn lögðu í púkkið og aðbúnaðurinn á munaðarleysingjahælinu tók breytingum. Nú höfðu börnin eitthvað að bíta og brenna og aðbúnaður breyttist til batnaðar.
Ólafur stofnaði fyrst safnreikning á eigin nafni en fékk fljótlega þá hugmynd að stofna félag með kennitölu, bankareikning og setja stjórn yfir starfið. Þá fóru hlutir að gerast., .Tolli listmálari fjármagnaði vatnsbrunn og Jógasetrið safnađi upphæð sem nægđi fyrir rúmum handa öllum og vel það. Sonur Ólafs sem var í 10. bekk í Hagaskóla talaði fyrir málinu í skólanum og Björt sýn fékk veglega fjárhæð sem safnaðist á árlegum góðgerðardegi, svo eitthvað sé nefnt.
Aftur lagði Ólafur land undir fót of fór til Keníu í árslok 2018. Meðferðis var dágóður sjóður og metnaðarfullar áætlanir. Við komuna fékk hann þær fréttir að eini barnaskólinn í sveitinni hafđi lagt upp laupana og nú lá beinast viđ að byggja skóla.Í þessari sveit er botnlaus fátækt og öll menntun í mýflugu mynd. Þessi fyrsta tilraun var þó ekki upp á marga fiska; Frumstæður skóli úr bárujárni reis á tveimur mánuðum og nokkrar ílla menntaðar kennslukonu voru ráðnar. En skóli þarf nemendur og krakkarnir á heimilinu voru of fáir til að manna heilan skóla. Og það var því var ákveðið að taka einnig við fátækustu börnunum úr nærsveitum.
Það voru bara tveir ljóðir á, en ansi stórir. Það hvarf alltaf eitthvað af því fjármagni sem við skröpuðum saman, oní einhverja svarta holu.Í byrjun var það ekki mikið, þar sem ekki var úr miklu að moða, en það varð alltaf meira og meira. Ólafi var sagt að þannig væri þetta bara og lítið við því að gera. Ef við gætum haldið því undir tíu prósentum værum við góð. Og síðan hitt, að börnin voru barin miskunnarlaust af minnstu tilefnum. Það var alveg sama hvað Ólafur barðist um hæl og hnakka, það virtist ekki vera hægt að breyta þessu. Það var ólíðandi. Það þurfti að gerast eitthvað drastískt.
Til að gera langa sögu stutta àkvað Ólafur að stofna sjálfur heimili og barnaskóla. Hinn kosturinn hefði verið að fara bara heim og reyna að gleyma þessum börnum. Það var bara ekki í boði.. Hann fékk með sér í lið kennslukonu Elsu Akinyi, sem bæði hefur staðgóða menntun og langa starfsreynslu með munaðarlausum börnum og börnum með sérþarfir. Og það sem mest er um vert, með risa mömmuhjarta. Fest voru kaup á barnaskóla í útjaðri Oyugis, sem hafði staðið í eyði í nokkur ár vegna draugagangs og álaga sem sagt var að hvíldi á honum (slíkt er alls ekki óalgengt þar um slóðir). Og svo tóku þau veikustu og viðkvæmustu börnin frá Ikhlaas með sér, eftir smá dramatískan skilnað.
Takk heimilinu hefur hratt vaxið fiskur um hrygg, og á fjórum árum hafa skeð undur og stórmerki. Það hefur myndast margskonar tenging við Ísland og yfir þrjátíu Íslendingar hafa komið í heimsóknir í lengri eða skemmri tíma. Með þeim hafa komið ýmiskonar ferskir vindar og innblástur. T.d. stunda eldri börnin um þessar mundir nám “on line”, bæði í stærðfræði í prógrammi sem tengt er Háskóla Íslands (“Smiley Charity”), og rafmagnsfræðum með kennara við Tækniskólann, Gísla Sigurgeirssyni. Tveir eru í háskóla og einn í menntaskóla. Og þó nokkur hafa verið “útskrifuð” með ýmiskonar starfsmenntun.